Jólahlaðborð Fjörukráarinnar
- By Birna Viðarsdóttir
- •
- 28 Sep, 2018
- •
Hefst 23. nóvember


Gamla Búðin
Gamla búðin var byggð árið 1841 af Matthíasi Jónssyni Mathiesen kaupamanni, syðra húsið byggði hann ári seinna, bæði þessi hús standa enn í húsaþyrpingu Víkingaþorpsins í sinni upprunalegu mynd og kallast í daglegu tali Fjaran eða Fjörukráin.
Í gegnum tíðina hefur margvís rekstur verið í þessum gömlu húsum eins og krambúð, verslun, pakkhús, smiðja, seglasaumur, fyrsta kennsla í stýrimannafræðum, hesthús og heygeymsla og lyfjaverslun svo eitthvað sé nefnt. Einnig tengdist Gamla búðin fyrri part síðustu aldar togaraútgerð hér í Hafnarfirði sem síðan var grunnur að blómlegri togaraútgerð og uppbyggingu bæjarins.
Þann 7. Febrúar 1985 samþykkti bæjarráð að láta rífa húsið að fengnu samþykki bygginganefndar. Sendi bygginganefnd málið til húsafriðunarnefndar sem mælti eindregið gegn því að húsið yrði rifið. Um svipað leyti seldi bæjarsjóður húsið þeim Viktori Strange og Harrý Hólmgeirssyni, þeir endurbyggðu húsið og því lauk í desember 1986. Það ár var veitingahúsið Fjaran opnað með glæsibrag.
Árið 1990 seldu þeir reksturinn til Jóhannesar Viðars Bjarnasonar sem breytti nafninu strax í Fjörukrána og opnaði staðinn eftir breytingar 10 maí sama ár, um leið og hann byrjaði með ýmsar nýjungar sem ekki höfðu verið mikið áberandi í veitingarekstri hér í Hafnarfirði né annarstaðar áður.
Hann byrjaði að tengja söng og matargerðarlist saman og var með hina ýmsu daga frá hinum og þessum þjóðlöndum, klæddi þjóna, söngvara sem og hljómlistarmenn í viðkomandi þjóðbúninga þar sem þeir áttu við. Meðal þeirra daga sem hann var með voru franskir dagar, svissneskir, austurrískir, danskir, rússneskir, egypskir , færeyskir og grænlenskir. Aragrúi af erlendum listamönnum hafa því heimsótt Fjörukrána í gegnum tíðina, svo ekki sé talað um þá íslensku söng- og hljómlistarmenn, sem skemmt hafa gestum.
Ári seinna eða 1991 byrjuðu víkingaveislurnar í tjaldi sem reist var sunnan við Fjörukrána (Gömlu búðina). 10 maí varð fyrir valinu, sem seinna varð nokkurskonar kynningardagur á þeim nýjungum sem komu upp á hverju ári og voru margar veglegar veislur fyrir velunnara staðarins haldnar næstu árin í því tilefni að kynna þá nýbreytni í rekstrinum .
Þannig stig af stigi hefur þetta allt stækkað. Fjörukráin sem byrjaði með 60 sæti hefur nú um 500 sæti fyrir gesti í þeim húsakynnum sem nú eru tveir samhliða veitingastaðir, Fjaran og Fjörugarðurinn og samheitið fyrir þá er Fjörukráin og síðan Hótel Víking.
Eins og áður segir byggðist þessi rekstur upp eftir efnum og ástæðum og smátt og smátt reis þetta upp hvert af öðru. Hofið var byggt og ekki urðu allir sáttir við það og varð af talsverð umræða bæði í blöðum sem og öðrum stöðum en upp var það komið og stendur þar enn og orðið eitt af kennileitum Hafnarfjarðar.
Eins var farið í skemmti- og hvalaskoðunarferðir, skip keypt og nefnt Fjörunesið, bryggja byggð fyrir framan Fjörukrána, en því miður var þetta ekki rétti tíminn fyrir þennan rekstur því hvalaskoðun var ekki komin í tísku þá og engar vínveitingar leyfðar um borð í skipinu þannig að eftir 2 ár lagðist þessi rekstur niður svo það má segja að þarna var ekki tímasetning rétt því þetta varð blómlegur rekstur nokkrum árum seinna.
Vélsmiðja Hafnarfjarðar bættist síðan í reksturinn og henni breytt í gistihús sem nefnt var Vestnorden gistihús, herbergin voru merkt og myndir settar inn á þau frá merkum stöðum hjá frændum og nágrönnum í Færeyjum og Grænlandi, að sjálfsögðu var íslenskt handverk í hávegum haft þar líka.
Einnig var opnað á neðri hæð hússins Vestnorden Kulturhús, með vinnuaðstöðu fyrir handverksmenn og verslun sem seldi síðan afurðir þeirra.
En eins og með útgerðina bar þetta sig ekki og rekstrinum breytt í þann rekstur sem vænlegri var og gistihúsinu breytt í hótel með fjölgun herbergja og sölubúðinni breytt í morgunverðarsal og hellir byggður við til að stækka þann sal. Nú eru á hótelinu 42 herbergi, vel útbúin þeim þægindum sem gestir þurfa á hóteli, þannig að ýmislegt hefur verið reynt, sumt tekist ágætlega en annað ekki, eins og gengur og gerist í rekstri.
Fjörukráin var vel virk á árum áður að fara í víking erlendis, um árabil var unnið að landkynningum í hinum ýmsu stórborgum Evrópu mest með Flugleiðum og Ferðamálaráði, eða þá á eigin vegum.
Reyndist þetta hin besta markaðskynning sem varð til þess að megin þorri þeirra útlendinga sem sóttu Ísland heim komu við í víkingaveislur á Fjörukránni.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og margt annað hægt að tína til en það bíður betri tíma, en eitt er víst að frá því að Gamla búðin var byggð fyrir nær 170 árum hefur verið líf og fjör í kringum þessi hús og vonandi verður það um ókomna tíð. Tuttugusta árið er senn að byrja og af því tilefni verður margt gert til að halda upp á þann áfanga, í undirbúningi eru hinar ýmsu uppákomur sem koma til með að tengjast afmælisárinu.